Viðskiptaskilmálar Auðar

Neðangreindur viðskiptavinur (hér eftir nefndur viðskiptavinur eða undirrituð/-aður) og Kvika banki hf., kt. 540502-2930, Katrínartúni 2, Reykjavík (hér eftir Kvika eða bankinn) gera með sér þennan samning um stofnun á viðskiptasambandi hjá Auði. Við stofnun á viðskiptasambandi stofnar viðskiptavinur sparnaðarreikning hjá Auði. Auður er vörumerki fyrir rafræna þjónustu um fjármál og er hluti af þeirri þjónustu sem Kvika býður viðskiptavinum upp á. Kvika er með viðskiptabankaleyfi skv. lögum um fjármálafyrirtæki. Um sparnaðarreikninga Auðar og samninginn gilda eftirfarandi skilmálar, auk almennra skilmála vegna viðskipta hjá Kviku banka hf. og aðgengilegir eru á heimasíðu Kviku, kvika.is.

I. Skilmálar sparnaðarreikninga Auðar

Viðskiptavinur þarf að kynna sér og samþykkja neðangreinda skilmála með rafrænni undirritun.

Viðskiptavinur hefur valið að stofna sparnaðarreikning Auðar. Sparnaðarreikningur Auðar er óbundinn, óverðtryggður, með vöxtum sem ákvarðaðir eru af Kviku og birtir eru á heimasíðu Auðar. Sparnaðarreikningurinn er eingöngu aðgengilegur á heimasíðu Auðar, www.audur.is. Sparnaðarreikningur Auðar er eingöngu í boði fyrir einstaklinga sem náð hafa 18 ára aldri. Þó skal einstaklingum eldri en 13 ára heimilt að stofna til viðskipta og opna reikninga fyrir sjálfsafla- og gjafafé sitt.

II. Persónuvernd

Með undirritun sinni veitir viðskiptavinur Kviku heimild til vinnslu persónuupplýsinga sem nauðsynleg er til að framkvæma samning þennan og uppfylla lagalegar skyldur sínar m.a. samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Við umsókn um viðskipti óskar Kvika eftir ýmsum persónuupplýsingum um viðskiptavini. Tilgangur vinnslu persónuupplýsinga er að Kvika geti efnt skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og lögum og reglum stjórnvalda.

Persónuupplýsingar eru varðveittar á meðan viðskiptasamband varir og lög mæla fyrir um eða viðskiptahagsmunir Kviku krefjast og málefnaleg ástæða þykir til. Málefnaleg ástæða er til staðar ef enn er unnið með upplýsingarnar í samræmi við upphaflegan tilgang með söfnun þeirra eða vegna viðskiptalegra hagsmuna bankans, t.d. til þess að afmarka, setja fram og verja kröfur bankans. Kvika leitast við að varðveita ekki upplýsingar á persónugreinanlegu formi lengur en nauðsynlegt er.

Öll samskipti viðskiptavinar vegna Auðar byggja á þeim upplýsingum sem viðskiptavinur veitir. Viðskiptavinur skal upplýsa um allar breytingar á upplýsingum sem hann hefur áður veitt án tafar.

Um vinnslu persónuupplýsinga gildir persónuverndarstefna Kviku sem er aðgengileg á kvika.is.

III. Vextir

Upplýsingar um vexti er að finna á heimasíðu Auðar, audur.is. Kviku er heimilt að breyta gildandi vöxtum án fyrirvara. Breytingar á vöxtum taka gildi frá birtingu þeirra á heimasíðu Auðar.

Almennt er vaxtaárið 360 dagar. Vaxtatímabil miðast við 30 daga í mánuði, en upphafi og lok tímabils fer eftir tegund innlánsreiknings hverju sinni. Almennt bera innborganir vexti frá og með þeim tíma er fjármunir eignfærðir á reikning en ef reikningur er stofnaður um helgi eða eftir klukkan 21:00 á virkum degi er bókunardagur innborgunar næsti virki dagur. Síðasti vaxtadagur er dagurinn áður en úttekt er skuldfærð á reikning. Það ræðst af eðli og tegundum reikninga hvenær vextir leggjast við höfuðstól. Fjármagnstekjuskattur er skuldfærður við vaxtabókun.

Viðskiptavinur greiðir enga þóknun fyrir þjónustu tengda sparnaðarreikningum Auðar.

IV. Úttektir út af innlánsreikningi

Aðeins viðskiptavinur sjálfur hefur heimild til úttektar af sparnaðarreikningi Auðar. Viðskiptavini er einungis heimilt að taka út af sparnaðarreikningi Auðar og leggja inn á fyrirfram tiltekinn ráðstöfunarreikning á sinni eigin kennitölu. Innstæðan er alltaf laus til útborgunar. Athugið þó að stórgreiðslukerfi bankanna getur tafið afhendingu fjármuna milli bankareikninga á Íslandi. Um stórgreiðslukerfi og aðra fjármálainnviði má lesa á heimasíðu Seðlabanka Íslands undir liðnum Fjármálainnviðir. Ekki er hægt að millifæra út af reikningnum sama dag og hann er stofnaður.

V. Uppsögn

Viðskiptavini og Kviku er heimilt að segja þessum samningi upp hvenær sem er án fyrirvara eða sérstakra tilkynninga. Kviku skal heimilt að segja upp viðskiptasambandi sínu við viðskiptamann sé umfang og eðli viðskipta með þeim hætti að bankinn telur það ekki arðbært.

VI. Annað

Kvika áskilur sér rétt til að ákveða einhliða hvaða öryggisráðstafanir teljast fullnægjandi vegna þjónustu Auðar. Viðskiptavinur skal nota rafræn skilríki til að auðkenna sig við innskráningu á heimasíðu Auðar. Viðskiptavinur ber fulla ábyrgð á öllum aðgerðum sem eru framkvæmdar með skilríkjum. Handhafi rafrænna skilríkja ábyrgist jafnframt tjón gagnvart eiganda þeirra (Auðkenni hf.) og/eða Kviku, sem kann að verða við vörslu eða notkun rafrænna skilríkja, t.d. við misnotkun notanda eða annars aðila. Kvika ber ekki ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinur verður fyrir vegna rafræns þjófnaðar eða annars þjófnaðar, þriðja manns á bankagögnum og/eða öðrum upplýsingum hans.

Viðskiptavinur skal tilkynna Kviku um grun um misnotkun á rafrænum skilríkjum tafarlaust í gegnum netfangið audur@audur.is.

Um sparnaðarreikninga Auðar gildir enginn lágmarksgildistími. Mögulegt er að viðskiptavinur þurfi að greiða skatta og/eða kostnað sem hvorki eru greiddir fyrir milligöngu Kviku, né Kvika leggur á eða innheimtir. Um þennan samning og markaðssetningu Kviku á Auði gilda lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu.

Kviku er heimilt að breyta skilmálum þessum einhliða hvenær sem er og taka slíkar breytingar gildi án fyrirvara ef þær eru til hagsbóta fyrir viðskiptavin. Séu breytingarnar ekki til hagsbóta fyrir viðskiptavin taka breytingarnar gildi með tveggja mánaða fyrirvara. Geri viðskiptavinur ekki athugasemdir innan þess tíma telst hann hafa samþykkt breytingarnar. Breytingar á öllum skilmálum Auðar eru birtar á heimasíðu Auðar, audur.is, og skal viðskiptavini tilkynnt um þær með tölvupósti. Tilkynning til viðskiptavinar með tölvupósti telst fullnægjandi boðleið til að kynna viðskiptavini hvers kyns breytingar. Viðskiptavini ber skylda til að uppfæra tölvupóstfang sitt á heimasíðu Auðar og ber ábyrgð á að Auður hafi ávallt rétt tölvupóstfang viðskiptavinar skráð.

Viðskiptavinur getur ávallt nálgast yfirlit yfir reikninga sína á heimasíðu Auðar sér að kostnaðarlausu. Auður áskilur sér rétt til að afhenda viðskiptavini áramótayfirlit yfir reikninga hans á rafrænu formi í heimabanka. Öll mál sem kunna að rísa vegna sparnaðarreikninga hjá Auði skulu fara eftir íslenskum lögum nema um annað sé samið. Ágreiningi út af samningi þessum má vísa til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Rísi mál vegna þessa samnings skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Með undirritun á skilmála þessa hefur viðskiptavinur kynnt sér ákvæði þessara skilmála um sparnaðarreikninga Auðar og samþykkt þá. Gildandi viðskiptaskilmálar Kviku, skilmálar sparnaðarreikninga og birtir vextir á hverjum tíma teljast vera hluti samnings þessa.